„Allir voru algjörlega slegnir. Ég sá að fólk skyndilega flúði og öskraði,“ segir Maryam Violet, íranskur blaðamaður, í samtali við The Guardian, en hún varð vitni að árásinni í frönsku borginni Nice í kvöld. Hún segist hafa séð vörubíl aka á miklum hraða á hóp fólks á gangstéttinni.
„Fólk öskraði: „Þetta er hryðjuverkaárás, þetta er hryðjuverkaárás!“ Það var ljóst að ökumaðurinn gerði þetta af ásettu ráði.
Ég gekk næstum því eina mílu og það voru lík úti um allt. Ég held að yfir þrjátíu lík hafi legið á götunni og mjög margir voru særðir,“ segir hún.
Búið var að breiða blá lök yfir líkin.
„Ég sá tvær systur og einn bróður frá Póllandi sem syrgðu dauða tveggja systkina sinna. Yngsta systkinið var grátandi og hin tvö vissu bara ekki hvernig þau áttu að bregðast við,“ bætir hún við.
„Það voru svo margir múslimar á meðal fórnarlambanna vegna þess að ég gat séð að þau höfðu klút um höfuðið og sumir töluðu arabísku. Ein fjölskylda missti móður og þau sögðu á arabísku að hún væri píslarvottur.
Fólk var að fagna og það var svo friðsamt.“ Vörubíllinn hafi komið og keyrt yfir fólkið strax eftir flugeldasýninguna.
Sjónarvottar segja að vörubílstjórinn hafi keyrt á fullri ferð nokkuð langa vegalengd inn í mannfjöldann. Þannig hafi honum tekist að fella sem flesta. Talið er að í það minnsta 73 hafi látist. Hundrað í það minnsta eru slasaðir.