Marion Pavia er fædd og uppalin í Nice og starfar í verslun örskammt frá Promenade des Anglais þar sem vörubílnum var ekið á mannfjöldann í kvöld. Hún var heima og fylgdist með sjónvarpinu.
„Þetta er borgin mín og hér búa vinir mínir,“ segir hún í samtali við mbl.is. „Þetta hefur mikil áhrif á mig,“ sagði Marion.
Hún kvaðst vera mjög slegin yfir atburðum kvöldsins og uggandi yfir að mæta til vinnu á morgun.
Talið er að 60-70 manns í það minnsta hafi látist er bílnum var ekið á mikilli ferð að minnsta kosti um 100 metra inn í mannfjöldann sem var að fagna þjóðhátíðardegi Frakka.