Lögreglan sagði: Hlaupið núna!

Vörubíllinn er sagður hafa verið fullur af vopnum, m.a. sprengjum.
Vörubíllinn er sagður hafa verið fullur af vopnum, m.a. sprengjum. Skjáskot/Twitter

Í vörubílnum sem ekið var á mannfjöldann í Nice var mikið magn vopna og sprengja. Bílstjórinn gaf í áður en hann ók á fólkið sem var að fagna þjóðarhátíðardegi Frakka. Hann ók svo á 60-70 km hraða langa vegalengd og felldi tugi manna. Talið er að yfir sjötíu séu látnir. Talan er þó enn nokkuð á reiki. Sumir fjölmiðlar segja staðfest að 60 séu látnir en aðrir, m.a. Reuters, að fjöldinn sé 73.

Hryðjuverkarannsóknarteymi lögreglunnar í Frakklandi hefur nú tekið rannsóknina yfir. 

Sjónarvottur segir í samtali við CNN-fréttastofuna að bílstjórinn hafi aukið hraðann er hann nálgaðist fólkið. Ökumaðurinn hefur verið skotinn til bana en fréttir herma að hann hafi hafið skothríð er hann steig út úr bílnum.

„Lögreglan sagði: Hlaupið núna!“ segir Colin Srivastava sem var á vettvangi. Hann segist hafa horft á fólkið hlaupa í miklu uppnámi af svæðinu. Hann hafi svo hitt lögreglumann sem sagði honum að taka til fótanna.

Christian Estrosi, forseti Nice-svæðisins, segir að vörubíllinn hafi verið hlaðinn vopnum og sprengjum. Þetta kemur fram í frétt AP-fréttastofunnar. 

mbl.is