188 manns fluttir á sjúkrahús

Fólk leggur blómsveig til minningar um þá sem létust í …
Fólk leggur blómsveig til minningar um þá sem létust í árásinni í Nice í gærkvöldi. AFP

Frönsk yfirvöld segja að 188 manns hafi verið fluttir á sjúkrahús eftir hryðjuverkaárásina í Nice í gærkvöldi. Þar af séu 48 manns alvarlega særðir.

Francois Hollande, forseti Frakklands, sagði fyrr í dag að fimmtíu manns væru „á milli lífs og dauða“.

Að minnsta kosti 84 manns létu lífið í árásinni, þar af mörg börn. Ekki hafa verið borin kennsl á öll fórnarlömbin.

Stórum hvítum flutningabíl var ekið yfir hóp fólks á strandgötunni í Nice í suðurhluta Frakklands í gærkvöldi. Ökumaðurinn, sem síðar var drepinn í skotbardaga við frönsku lögregluna, er sagður hafa aukið hraðann mjög þegar hann nálgaðist mannfjöldann. Ók hann yfir fólk á um tveggja kílómetra löngum kafla á götunni.

Einnig skaut hann á vegfarendur og lögreglumenn úr glugga bílsins.

mbl.is