50 börn í hópi hinna slösuðu

Barnahjól og aðrir munir sem skildir voru eftir á strandgötunni …
Barnahjól og aðrir munir sem skildir voru eftir á strandgötunni eftir árásina. Að minnsta kosti 50 börn og unglingar eru meðal hinna slösuðu. AFP

Barnaspítalinn í Nice hefur sinnt um 50 börnum og unglingum sem slösuðust í hryðjuverkaárásinni í Nice í gærkvöldi.

AP-fréttastofan hefur eftir Stephanie Simpson, samskiptastjóra við Lenval-sjúkrahúsið, að meiðsl barnanna séu allt frá því að vera minni háttar og upp í alvarleg höfuðmeiðsli. „Sum þeirra eru enn í lífshættu,“ sagði hún.

Simpson gat ekki gefið upp nákvæman fjölda þeirra barna sem komið hefur verið með á spítalann eftir árásina, né heldur aldur þeirra barna sem fórust.

Spítalinn er einn stærsti barnaspítali Frakklands og stendur aðstandendum barna, sem lentu í árásinni, til boða áfallahjálp þar. Þá hafði starfsfólk spítalans í kjölfar árásarinnar samband við fjölskyldur margra barna sem þegar voru í meðferð þar og báðu um að börnin yrðu sótt svo hægt yrði að sinna fórnarlömbum árásarinnar.

mbl.is