Fréttir af árásinni í frönsku borginni Nice í gærkvöldi eru nokkuð að skýrast. Saksóknaraembættið í París fer nú með rannsókn málsins, en árásin er rannsökuð sem hryðjuverk.
Það sem er vitað um árásina nú þegar:
- Stórum vörubíl var ekið inn í mikinn mannfjölda við strandgötu í borginni Nice í suðurhluta Frakklands klukkan 23 að staðaríma, 21 að íslenskum tíma, í gærkvöldi. Fólkið var að fagna þjóðhátíðardegi Frakka.
- Að minnsta kosti 84 létust, þar á meðal mörg börn, yfir tíu talsins, samkvæmt heimildum Sky News.
- Átján manns til viðbótar liggja lífshættulega særðir á sjúkrahúsi.
- Ökumaður vörubílsins var skotinn til bana af lögreglu. Rannsakendur reyna nú að komast að því hvort hann eigi sér vitorðsmenn. Árásin er rannsökuð sem hryðjuverk, en enginn hefur enn lýst henni á hendur sér.
- Franskir fjölmiðlar greina frá því að nafn árásarmannsins sé Mohamed Lahouaiej Bouhlel. Húsleit var gerð á heimili hans í morgun. Samkvæmt heimildum Reuters var hann 31 árs gamall og af frönsku og túnisku bergi brotinn. Hann er talinn hafa búið í Nice.
- Sjónarvottar segja að ökumaðurinn hafi sveigt til og frá á götunni til þess að reyna að myrða sem flesta. Hann ók um tvo kílómetra á strandgötunni á um fimmtíu kílómetra hraða. Einn sjónarvottur sagðist hafa séð manninn skjóta á vegfarendur og lögregluþjóna úr glugga bílsins, áður en lögreglan skaut hann til bana.
- Annar sjónarvottur hefur lýst því hvernig fólk hékk utan í hurðum bílsins til þess að reyna að stöðva för hans. Einn maður stökk meira að segja á bílinn og kom ökumanninum þannig úr jafnvægi.
- Sjónarvottar hafa lýst því hvernig foreldrar köstuðu börnum sínum yfir girðingar til þess að koma í veg fyrir að ökumaðurinn æki yfir þau.
- Franskir fjölmiðlar hafa greint frá því að ökumaðurinn hafi áður komist í kast við lögin í Frakklandi. Hann var ekki á lista yfir hættulega hryðjuverkamenn.
- Christian Estrosi, héraðsstjóri í Alpes-Cote d'Azur, hefur sagt að vopn og sprengjur hafi fundist í vörubílnum. Hluti rifflanna sem fundust var leikfangabyssur.
- Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur lýst því yfir að neyðarlögin í landinu verði framlengd um þrjá mánuði. Hann sagði að landamæraeftirlit yrði eflt. Franskur liðstyrkur er væntanlegur til Íraks og Sýrlands.
- Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, sagði að Frakkar væru í stríði við hryðjuverkamenn sem vildu ráðast á þá, sama hvað það kostaði. Þeir væru sérstaklega ofbeldisfullir.
- Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg í landinu.
- Valls og Hollande munu fara saman til Nice fyrir hádegi í dag.
- Þjóðarleiðtogar um allan heim, þar á meðal Barack Obama, Theresa May, Angela Merkel, Xi Jinping og Mariano Rajoy, hafa fordæmt árásina.