Árásin í hnotskurn

Lögreglan rýmdi svæði umhverfis bílinn. Í ljós kom að heilt …
Lögreglan rýmdi svæði umhverfis bílinn. Í ljós kom að heilt vopnabúr var inni í bílnum. AFP

Yfirvöld eru smám saman að draga upp skýrari mynd af því sem gerðist í Nice í gærkvöldi og staðfesta upplýsingar sem fram hafa komið.

Það sem vitað er um árásina nú þegar:

  • Stórum, hvítum, númerslausum, 25 tonna vöruflutningabíl var ekið inn í mannfjölda við strandgötu í Nice kl. 21 að íslenskum tíma í gærkvöldi.
  • Árásin var gerð skömmu eftir að flugeldasýningu á ströndinni lauk. Fólkið var að fagna þjóðhátíðardegi Frakka. 
  • Mörg hundruð manns urðu fyrir bílnum á um tveggja km langri leið hans í gegnum mannþröngina.
  • Að minnsta kosti 84 létust. Yfir 40 eru lífshættulega slasaðir. Margir til viðbótar eru særðir.
  • Nokkur börn eru meðal látinna.
  • Sjúkrahús í Nice hafa sent út neyðarkall og óskað eftir blóðgjöfum.
  • Dagblaðið Nice-Matin hefur eftir heimildarmanni að ökumaðurinn hafi verið 31 árs af frönsku og túnisísku bergi brotinn. Hann er talinn hafa búið í Nice.
  • Vegfarendur reyndu að stöðva för bílstjórans með því að hanga utan á bíl hans. 
  • Yfirvöld hafa nú staðfest, að því er dagblaðið Guardian segir, að bílstjórinn hafi einnig skotið á fólk út um gluggann á bílnum á meðan hann var á ferð.
  • Lögreglan skaut ökumanninn til bana. Enn er óljóst hvort hann var einn á ferð.
  • Þá hafa yfirvöld staðfest að í bílnum hafi fundist mikið magn vopna, meðal annars sprengjur. Heimildir AFP-fréttastofunnar herma að hluti riffla sem fannst í bílnum hafi verið leikfangabyssur. 
  • Vitni segja að ökumaðurinn hafi sveigt til og frá eftir götunni til að aka á sem flesta. Hann ók einnig á ljósastaura og tré og brak og lík flugu í allar áttir.
  • Sjónarvottar segja að bíllinn hafi verið á um 50–70 km hraða er hann ók inn í mannfjöldann.
  • Árásin er rannsökuð sem hryðjuverk. 
  • Neyðarástandi er áfram lýst yfir og verður svo í að minnsta kosti þrjá mánuði.
  • Enginn hefur lýst ábyrgð á voðaverkinu á hendur sér. 

Hvað segja stjórnmálamennirnir:

  • François Hollande, forseti Frakklands, segir að árásin hafi verið „skepnuskapur“ og sagði að nú yrði unnið að því sem aldrei fyrr að komast að rótum hryðjuverka. Franskur liðsstyrkur er væntanlegur til Sýrlands og Íraks.
  • Hollande er á leið til Parísar og mun svo í fyrramálið fara til Nice. 
  • Franski innanríkisráðherrann Bernard Cazeneuve sagði: „Við erum í stríði við hryðjuverkamenn sem vilja ráðast á okkur hvað sem það kostar og eru mjög ofbeldisfullir.“ 
  • Barack Obama Bandaríkjaforseti og forsetaframbjóðandinn Hillary Clinton hafa fordæmt árásina.
  • Forsetaframbjóðandinn Donald Trump hefur frestað því að tilkynna um varaforsetaefni sitt en það ætlaði hann að gera í dag, föstudag. 
mbl.is