Þegar fólkið á strandgötunni í Nice sá vörubílinn koma reyndi það að stöðva för hans. Lengi vel hékk fólk utan í bílnum til að reyna að fá bílstjórann til að stoppa. En þá gaf hann í og ók á fleygiferð inn í mannþröngina. Sky-fréttastofan hefur birt myndskeið af því þegar bíllinn kemur inn götuna og þegar hann fer í átt að fólkinu.
Fleiri hundruð manns voru samankomnir á svæðinu. Flestir voru á heimleið eftir að hafa fylgst með flugeldasýningu á ströndinni við Miðjarðarhafið.
Að minnsta kosti áttatíu eru látnir og margir eru slasaðir. Bílnum var ekið um tvo km inni í mannþrönginni áður en hann var stöðvaður. Lögreglan skaut svo bílstjórann til bana.
Sjónarvottar segja að bílstjórinn hafi sveigt til og frá eftir götunni og þannig viljandi ekið á sem flesta. Þeir segja einnig að hann hafi skotið út um gluggann á bílnum á ferð.
„Við héldum að við værum orðin ímyndunarveik þegar við sáum vörubílinn „sikk-sakka“ um götuna,“ segir sjónarvottur í samtali við Sky-fréttastofuna. „Maður vissi ekkert hvert hann var að fara. Konan mín...nokkrum metrum frá mér...hún var dáin.“
Annar sjónarvottur segir að bílnum hafi verið ekið á allt sem fyrir var; ljósastaura, tré og fólk.