Berjast gegn „hryðjuverkaplágunni“

Þjóðarleiðtogarnir risu á fætur og virtu mínútu þögn til að …
Þjóðarleiðtogarnir risu á fætur og virtu mínútu þögn til að minnast fórnarlamba árásarinnar í Nice við upphaf Asíu-Evrópufundarins í Úlan Bator í morgun. AFP

Leiðtogar á fundi Evrópu- og Asíuríkja sem stendur nú yfir í Mongólíu fordæmdu í morgun „svívirðilega“ og „huglausa“ árásina í Nice í Frakklandi og hétu því að berjast saman gegn plágu hryðjuverka. Mínútu þögn var haldin við upphaf fundarins til þess að minnast fórnarlambanna.

Rúmlega áttatíu manns eru látnir og fjölmargir særðir eftir að maður ók flutningabíl á miklum hraða í gegnum mannfjöldann á göngusvæði í borginni Nice á þjóðhátíðardegi Frakka í gærkvöldi.

Asíu-Evrópufundurinn (ASEM) hófst í morgun í Úlan Bator í Mongólíu en þetta er í tuttugusta skipti sem hann er haldinn. Til stóð að ræða baráttuna gegn hryðjuverkum á honum en árásin í Nice er sögð gefa þeim umræðum enn meiri hvata.

„Það er sorgleg þversögn að skotmark þessarar árásar var fólk sem var að fagna frelsi, jafnrétti og bræðralagi,“ sagði Donald Tusk, forseti Evrópuráðsins. 

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, sagði að aldrei yrði hægt að „fyrirgefa fyrirlitleg hryðjuverk gegn saklausu fólki“ og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði alla „sameinaða í áfalli“.

Utanríkisráðherra Frakklands, Jean-Marc Ayrault, ákvað að snúa heim snemma vegna árásarinnar. Hann þakkaði þjóðarleiðtogunum fyrir „óundirbúna og einlæga samstöðu með frönsku þjóðinni“.

mbl.is