„Bíllinn stefndi beint á mig“

Lögreglumenn og rannsakendur skoða vörubílinn sem ók inn í mannþröngina …
Lögreglumenn og rannsakendur skoða vörubílinn sem ók inn í mannþröngina í Nice í gærkvöldi. AFP

Kanadamaður sem varð vitni að árásinni í frönsku borginni Nice í gærkvöldi hefur lýst því í samtali við breska ríkisútvarpið hvernig vörubíllinn stefndi beint á hann þegar honum var ekið í gegnum mannþröngina á strandgötunni.

„Ég heyrði öskur og allir voru að hlaupa í ólíkar áttir. Ég vissi ekki hvað var að gerast. Þetta var fjarstæðukennt. Ég hreyfði mig ekki og hélt að þetta hlyti að vera einhvers konar brandari,“ sagði maðurinn, Pouya frá Toronto í Kanada.

„Síðan sá ég vörubíllinn stefna beint á mig. Hann sveigði til og frá um allt.“

Hann sagðist á þeirri stundu ekki hafa getað hugsað með fullri meðvitund. Líkaminn hefði einfaldlega tekið yfir og hann hlaupið burt og flúið eins hratt og hann gat.

„Það voru margir í áfalli og lík út um allt. Lögreglan var alls staðar. Ég vildi ekki horfa á líkin.

Í fyrstu leið mér ágætlega og fannst eins og ég ætti að vera óttaslegnari. En þegar leið á nóttina áttaði ég mig á því að ég var í raun í engu jafnvægi.“

Hann sagðist þegar hafa pantað sér flug frá Nice. Hann yrði að koma sér burt.

Þegar fólkið á strand­göt­unni sá vöru­bíl­inn koma á fleygi­ferð reyndu margir að stöðva för hans. Lengi vel hékk það utan í bíln­um til þess að reyna að fá öku­mann­inn til þess að stoppa. En þá gaf hann í og ók á fleygi­ferð inn í mannþröng­ina.

Maður­inn skaut einnig á veg­far­end­ur og lög­regluþjóna úr glugga bíls­ins. Lög­regl­an skaut hann loks til bana.

Að minnsta kosti 84 lét­ust í árás­inni og eru fjöl­marg­ir særðir.

AFP
mbl.is