Blóðbað og hryllileg aðkoma

Aðkoman á strandgötunni var hryllileg.
Aðkoman á strandgötunni var hryllileg. AFP

„Við sáum lík. Eftir árásina snerum við aftur til þess að hjálpa fólki. Það var blóðbað,“ segir Imad Dafaaoui, einn þeirra fjölmörgu sem urðu vitni að hryðjuverkaárásinni í frönsku borginni Nice í gærkvöldi.

Hann ræddi við breska ríkisútvarpið í morgun og lýsti því sem fyrir augu bar. „Þetta var skelfilegt. Mér tókst að flýja í átt til strandarinnar, en það var röng ákvörðun. Ég þurfti að stökkva yfir grindverk því annars hefði vörubíllinn náð mér,“ sagði hann.

Honum tókst að komast í skjól á meðan vörubílnum var ekið á fimmtíu kílómetra hraða í gegnum mannþröngina á strandgötunni.

Þegar árásin var yfirstaðin og lögreglan hafði skotið ökumann vörubílsins til bana, sneru hann og eiginkona hans við og hjálpuðu til á vettvangi.

Aðkoman á götunni hefði verið hryllileg. „Það var blóð alls staðar“.

Ökumaður bílsins jók hraðann mjög þegar hann nálgaðist mannfjöldann og ók hann yfir fólk á um tveggja kílómetra löngum kafla á götunni Promenade des Anglais. Hann skaut einnig á vegfarendur og lögreglumenn úr glugga bílsins.

Að minnsta kosti 84 manns létu lífið í árásinni og fjölmargir liggja særðir á sjúkrahúsi, þar af í það minnsta 54 börn.

AFP
mbl.is