Hugur Reykvíkinga er hjá fórnarlömbunum, íbúum Nice og öllum þeim sem eiga um sárt að binda að því er segir í samúðarskeyti sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur sent Philippe Pradal, borgarstjóra Nice, í tilefni af árásinni sem felldi tugi manna í borginni í gærkvöldi.
Í samúðarkveðjunni sem Dagur sendi Pradal segir orðrétt:
„Fyrir hönd Reykvíkinga vil ég votta þér mína dýpstu samúð vegna þeirra voveiflegu atburða sem áttu sér stað í Nice á Bastilludeginum í gær. Hugur okkar er hjá fórnarlömbunum, íbúum Nice og öllum þeim sem eiga um sárt að binda vegna þessara óskiljanlegu voðaverka,“ skrifar Dagur.
Að minnsta kosti 84 eru látnir eftir árásina þar sem flutningabíl var ekið inn í mannhaf á göngugötu við ströndina í Nice eftir hátíðarhöld vegna þjóðhátíðardags Frakka í gærkvöldi. Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur lýst árásinni sem hryðjuverki. Hann segir að fimmtíu manns til viðbótar liggi á milli heims og helju eftir hana.