Ekki minnst á árásina í útvarpi Ríkis íslams

Strandgatan í Nice.
Strandgatan í Nice. AFP

Ekkert var minnst á hryðjuverkin í Nice í daglegum útvarpsþætti hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams í dag.

Samtökin hafa margoft notað útvarpsstöð sína, Al-Bayan, til þess að lýsa yfir ábyrgð á voðaverkum sínum á Vesturlöndunum. Í frétt breska ríkisútvarpsins segir þó að algengara sé að samtökin noti fréttamiðil sinn, Amaq, til þess.

Sérfræðingar sem BBC ræddi við segja þó að ekki megi túlka þögn útvarpsstöðvarinnar á þá leið að minni líkur séu á því að samtökin lýsi árásinni á hendur sér.

Amaq hefur ekki birt neinar fréttir á vefsíðu sinni eftir að árásin átti sér stað.

Árásarmaðurinn, Mohamed Lahouaiej Bou­hlel, virðist hafa verið einn að verki þegar hann ók stórum vörubíl inn í mannfjöldann í Nice í gærkvöldi, en lögreglan rannsakar nú hvort hann hafi átt sér vitorðsmenn. 

mbl.is