Ekkert bendir enn til að Íslendingar séu meðal fórnarlamba árásarinnar í Nice í gærkvöldi. Andri Lúthersson, deildarstjóri upplýsingamála hjá utanríkisráðuneytinu, segir ráðuneytið vera komið í samband við sérstakt neyðarteymi sem sett sé saman innan frönsku stjórnsýslunnar þegar atburðir eins og þessir gerist.
„Þar eru teknar saman allar upplýsingar varðandi árásina og m.a. þjóðerni þeirra sem hafa látist eða slasast. Við erum í beinu sambandi við þá, en enn sem komið er þá er ekkert sem bendir til að Íslendingar séu þarna á meðal,“ segir Andri.
Hann segir ekki mikið hafa verið hringt í neyðarnúmer utanríkisráðuneytisins, en þó sé eitthvað um að fólk hafi samband og láti vita af sér. „Við erum líka að hafa samband við Íslendinga sem vitað er að búa á svæðinu og það hefur gengið vel.“ Samfélagsmiðlar hafa þá líkt og áður reynst vel, þegar fólk þarf að láta vita af sér.
Utanríkisráðuneytið hvetur alla Íslendinga á svæðinu til að láta aðstandendur vita af sér. Sé aðstoðar þörf, eða ef ekki næst í Íslendinga á svæðinu, er fólki bent á að hafa samband við neyðarnúmer borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins, 545-9900, sem er opið allan sólarhringinn.