Forseti Íslands sendir Frökkum samúðarkveðjur

Francois Hollande Frakklandsforseti er hér á leið til fundar með …
Francois Hollande Frakklandsforseti er hér á leið til fundar með yfirmönnum öryggismála í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar. Forseti Íslands hefur sent Hollande samúðarkveðjur frá íslensku þjóðinni. AFP

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur sent forseta Frakklands, François Hollande, samúðarkveðju frá sér og íslensku þjóðinni vegna árásarinnar í Nice í Frakklandi í gærkvöldi að því er segir í fréttatilkynningu frá forsetaskrifstofu.

Hugur Íslendinga sé nú hjá hinum látnu, aðstandendum þeirra og vinum, sem og þeim sem nú berjast fyrir lífi sínu á sjúkrahúsum.

„Fórnarlömb þessarar atlögu voru saklaust fólk, fjölskyldur og vinir, sem fögnuðu þjóðhátíðardegi Frakklands sem tileinkaður er hinum sígildu hugsjónum um frelsi, jafnrétti og bræðralag. Það er brýnna en nokkru sinni fyrr að þjóðir heims efli órofa samstöðu um samfélag lýðræðis og mannúðar en láti ekki árásir af þessum toga raska þeim grunngildum sem barátta undanfarinna alda hefur skilað þjóðum heims,“ segir í kveðju forseta.

mbl.is