Fundu ungbarn með hjálp Facebook

Mikill lögregluviðbúnaður er í Nice eftir árásina mannskæðu í gærkvöldi.
Mikill lögregluviðbúnaður er í Nice eftir árásina mannskæðu í gærkvöldi. AFP

Átta mánaða gamall drengur, sem varð viðskila við foreldra sína í ringulreiðinni eftir að flutningabílnum var ekið inn í mannfjöldann í Nice í gærkvöldi, er kominn aftur í réttar hendur með hjálp Facebook. Margir hafa lýst eftir ástvinum sínum á samfélagsmiðlum eftir árásina.

Auglýst var eftir drengnum á Facebook en hann týndist í barnavagni sínum í öngþveitinu þegar hundruð manna flúðu undan flutningabílnum í gærkvöldi. Þúsundir manna deildu færslunni og bar það að lokum árangur.

Í ljós kom að ung kona hafði tekið drenginn með sér heim. Hún sá svo myndina af honum á Facebook og setti sig í samband við foreldra hans, að því er AFP-fréttastofan segir frá.

Tugir annarra hafa leitað á náðir samfélagsmiðla í von um að hafa uppi á ástvinum sem ekkert hefur spurst til frá því fyrir árásina.

„Við erum að farast úr áhyggjum.“ og „Við höfum ekki heyrt frá honum síðan hann fór að horfa á flugeldana.“ er á meðal skilaboðanna sem fólk hefur skilið eftir en árásin var gerð eftir flugeldasýningu í tilefni af þjóðhátíðardegi Frakka.

Margir þeirra sem er saknað eru börn og unglingar. Yfirvöld segja að tvö börn séu á meðal þeirra látnu og að um fimmtíu börn séu slösuð á sjúkrahúsi eftir árásina. 

mbl.is