Foreldrar eru sagðir hafa kastað börnum sínum yfir girðingar í örvæntingu til þess að reyna að koma þeim undan flutningabílnum sem ekið var inn í fjölmenna götu í Nice í gærkvöldi. Mynd ljósmyndara Reuters af dúkku við hlið barnslíks hefur orðið að táknmynd fyrir hryllinginn í borginni.
Að minnsta kosti tvö börn eru á meðal þeirra 84 sem staðfest er að hafi látist í árásinni sem var gerð að lokinni flugeldasýningu í tilefni af þjóðhátíðardegi Frakka í gærkvöldi. Auk þeirra hefur barnaspítalinn í borginni meðhöndlað fimmtíu börn sem slösuðust.
„Eiginmaður minn greip börnin og byrjaði að hlaupa. Ég sneri mér við og sá svo mikið af látnu fólki. Ég sá meira að segja barn með algerlega kramið höfuð,“ hefur franska sjónvarpsstöðin i'Télé eftir konu sem var í göngugötunni Promenade de Anglais.
Myndin sem ljósmyndarinn Eric Gaillard tók fyrir Reuters-fréttastofuna hefur farið víða í kjölfar árásarinnar. Hún sýnir dúkku við hlið þess sem er sagt vera lík barns sem búið er að breiða yfir á göngugötunni þar sem flutningabílnum var ekið á miklum hraða yfir fjölda fólks.
#AttentatsNice || #Photos : Eric Gaillard / @reuterspictures https://t.co/tESnNmXqEs #photo pic.twitter.com/VR9XAutlbN
— Margaux Duquesne (@MduqN) July 15, 2016