Frakkar munu auka liðsstyrk sinn í hernaðinum í Sýrlandi og Írak. Þetta sagði Francois Hollande, forseti Frakklands, á blaðamannafundi í nótt. Hann segir ljóst að árásin í Nice sé í eðli sínu hryðjuverkaárás.
Hollande sagði einnig frá því á fundinum að börn hafi verið meðal þeirra sem létust í árásinni.
Forsetinn segir að öryggi víða, m.a. við landamæri Frakklands, verði nú aukið. „Við erum full hryllings,“ sagði Hollande m.a. á fundinum. „En Frakkland er sterkt og Frakkland verður sterkara, ég lofa ykkur því.“
Allt frá því 13. nóvember í fyrra, er hryðjuverkaárásin var gerð í París, hefur öryggisstig landsins verið á neyðarstigi. Til stóð að afnema þessi neyðarlög 26. júlí. Af því verður hins vegar ekki í bráð. Það hefur nú þegar verið framlengt um þrjá mánuði. Þingið mun fjalla um frumvarp þess eðlis á næstu dögum.
„Hryðjuverkaógnin vofir yfir öllu Frakklandi. Svo við þessar aðstæður verðum við að sýna ýtrustu árvekni og staðfestu.“