Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg í Frakklandi vegna hryðjuverkaárásarinnar í frönsku borginni Nice í suðurhluta landsins í gærkvöldi. Þjóðarsorgin hefst á morgun.
„Hryðjuverkastarfsemi er ógnun sem hvílir þungt á Frakklandi,“ sagði hann við fjölmiðla í París í morgun. Hann er nú á leið til Nice, líkt og Francois Hollande Frakklandsforseti.
„Við horfumst í augu við stríð sem hryðjuverkamenn hafa hafið gegn okkur. Markmið hryðjuverkamannanna er að skapa ótta og skelfingu. Við munum ekki láta þá koma okkur úr jafnvægi,“ sagði hann.
Hann sagði auk þess að tímarnir hefðu breyst. Við ættum að læra að lifa með hryðjuverkaógninni. „Við verðum að sýna samstöðu og ró.“
„Þeir vildu gera atlögu að einingu frönsku þjóðarinnar.“ Eina rétta svarið fyrir Frakka væri að standa vörð um gildin sín.
Valls bætti að lokum við að saksóknaraembættið í París færi nú með rannsókn málsins.
Að minnsta kosti 84 létust þegar stórum vörubíl var ekið inn í mannþröngina á strandgötunni í Nice í gærkvöldi. Ökumaðurinn keyrði á um fimmtíu kílómetra hraða í nokkrar mínútur. Hann skaut einnig á vegfarendur og lögreglumenn úr glugga bílsins. Lögreglan skaut svo bílstjórann til bana.
.@manuelvalls: "terrorism is a threat which weighs heavily on France... we are faced with a war" #NiceAttack https://t.co/OtRpl23OG7
— Sky News (@SkyNews) July 15, 2016