Kennsl borin á sjö fórnarlömb

AFP

Börn og fullorðnir, íbúar Nice og ferðamenn voru myrt í hryðjuverkaárásinni í gær þegar stórum vörubíl var ekið inn í mannþröng á strandgötunni í Nice í suðurhluta Frakklands.

Fjölmargir sjónarvottar hafa lýst hryllingnum þegar ökumaðurinn ók á fimmtíu kílómetra hraða inn í mannhafið. Fólkið var að fagna þjóðhátíðardegi Frakka en flugeldasýningu var nýlokið þegar maðurinn lét til skarar skríða.

Frönsk yfirvöld hafa staðfest að í það minnsta 84 manns hafi látið lífið í árásinni. Fjölmargir liggja særðir á sjúkrahúsi, þar á meðal 54 börn.

Ekki er búið að bera kennsl á öll fórnarlömbin. Það mun skýrast á næstu klukkutímum og sólarhringum. Það sem er vitað nú er að einn Frakki, tveir Bandaríkjamenn, einn Svisslendingur, einn Rússi og tveir Armenar eru á meðal hinna látnu.

Sonur Fatimu Charrihi, eins fórnarlambanna, sagði að hún hefði borið blæju og iðkað sanna íslamstrú, ekki útgáfu hryðjuverkamannanna af íslam.

Annað fórnarlamb var, að sögn franskra fjölmiðla, aðstoðaryfirmaður landamæralögreglunnar í Nice, Jean-Marc Leclerc.

Þrír Þjóðverjar eru ófundnir, að sögn þýskra yfirvalda. Óstaðfestar fregnir herma að þrír grunnskólabekkir frá skóla í Berlín hafi tekið þátt í hátíðarhöldunum í miðbæ Nice í gærkvöldi, áður en árásarmaðurinn lét til skarar skríða, og að kennari og tvö börn séu á meðal hinna látnu.

Bandarískir feðgar, Sean Copeland, 51 árs, og ellefu ára sonur hans, Brodie, voru einnig myrtir. Þeir komu frá Texas.

Strandgatan í Nice.
Strandgatan í Nice. AFP
mbl.is