Áætlunarflug flugfélagsins WOW air til Nice er óbreytt og hefur lítið sem ekkert verið um afbókanir. Þetta segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air.
„Við fengum þær upplýsingar frá flugvellinum í Nice í dag að öll flugfélög myndu halda áætlun,“ segir Svanhvít, en næsta áætlunarflug WOW air til Nice er á sunnudaginn.
Vel er bókað í vélina á sunnudag og hafa fáir breytt fluginu þrátt fyrir hryðjuverkin í Nice í gærkvöldi. „Það hafa nánast engin símtöl borist í þjónustuverið í dag frá fólki sem vill breyta flugi svo það er ekki verið að afbóka,“ segir Svanhvít.
Fjallað var um það fyrr í dag að flugvellinum í Nice hefði verið lokað og hann opnaður aftur stuttu seinna, en Svanhvít segist ekki hafa fengið upplýsingar um hvers vegna það hafi verið gert. „Við vitum bara að flugfélög eiga að halda áætlun.“