Claude Moniquet, franskur hryðjuverkasérfræðingur, segir það „nokkuð ljóst“ að árásin í frönsku borginni Nice í kvöld hafi verið hryðjuverkaárás.
Hann segir að hugmyndin hafi „greinilega“ verið sú að bíða með að gera árásina þar til Evrópumótinu í knattspyrnu lyki. Mótinu lauk síðasta sunnudag.
Í samtali við breska ríkisútvarpið segir hann það ekki enn hafa verið staðfest af lögreglu að vopn og sprengjur hafi fundist í vörubílnum sem ók á mannfjöldann í Nice. Ef fregnir um að svo hafi verið séu hins vegar á rökum reistar gefi það til kynna að árásin hafi verið flóknari og betur undirbúin en annars.
Hann bætir við að ef árásarmaðurinn hafi verið franskur ættu yfirvöld að geta borið strax kennsl á hann.
Yfirvöld hafa enn ekki staðfest hvort árásin hafi verið hryðjuverkaárás.
Ljóst er að bílstjórinn gaf í áður en hann ók á mannfjöldann sem var að fagna þjóðarhátíðardegi Frakka. Hann ók svo á sextíu til sjötíu kílómetra hraða langa vegalengd og felldi tugi manna. Talið er að yfir sjötíu séu látnir. Yfir hundrað eru særðir.