Ljóst er að í það minnsta 84 eru látnir eftir að vörubíl var ekið á mikinn mannfjölda í Nice í gærkvöldi. Fimmtán eru sagðir í lífshættu. Fleiri, jafnvel mörg hundruð, liggja slasaðir á sjúkrahúsum. Talið er að ökumaður bílsins hafi aukið hraðann er hann nálgaðist fólkið. Hann er svo talinn hafa ekið jafnvel um tvo kílómetra inn í hópinn og þar með náð að slasa og drepa fjölda manns.
Fólkið sem gekk um strandgötuna Promenade des Anglais í veðurblíðunni í gær var létt í spori enda flestir á leiðinni heim eftir að hafa horft á flugeldasýningu í tilefni þjóðhátíðardagsins.
„Andrúmsloftið var gott,“ skrifar franski blaðamaðurinn Damien Allemand í blaðið Medium. „Flugeldasýningin var frábær, börn voru að leika sér og kasta steinum í vatnið.“ Svæðið var iðandi af mannlífi.
En á einu augabragði breyttist gleðin í örvæntingu og hrylling.
„Andartaki síðar kemur stór, hvítur vörubíll á miklum hraða, hann beygir til og frá til að ná sem flestum. Ég heyri hljóð. Öskur sem ég mun aldrei gleyma. Ég lamaðist. Ég gat ekki hreyft mig,“ skrifar Allemand.
Um kl. 21 að íslenskum tíma, kl. 23 að staðartíma, kom vöruflutningabíllinn á fleygiferð í átt að mannfjöldanum. Og hann hægði ekki á sér heldur gaf í.
Sjónarvottar segja að ökumaður vörubílsins hafi skotið á fólk út um glugga bílsins er hann var enn á ferð. Þeir segja einnig að hann hafi augljóslega viljandi reynt að aka fólk niður og „sikk-sakkað“ um götuna svo að hann gæti náð sem flestum. Á myndum sem hafa verið birtar á samfélagsmiðlum má sjá fjölda líka í hrúgum á götunni.
Yfirvöld í Nice hafa staðfest að bíllinn hafi verið fullur af vopnum, m.a. sprengjum. Þær sprungu þó ekki í árekstrinum. Vörubíllinn er gataður eftir kúlnahríð lögreglunnar en hún skaut ökumanninn til bana.
Íbúar í næsta nágrenni svæðisins eru enn hvattir til að halda sig innandyra.
Gríðarlegt öngþveiti myndaðist er hundruð manna reyndu að koma sér af svæðinu enda alls óvíst hvað væri að fara að gerast næst. Sérfræðingar telja næsta víst að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða. Enginn hefur þó lýst yfir ábyrgð á hendur sér.
Málið er rannsakað sem hryðjuverk af sérstöku teymi lögreglunnar. Nú er m.a. verið að reyna að komast að því hvort að ökumaðurinn hafi verið einn á ferð eða hvort einhver annar var með honum í bílnum eða í vitorði með honum.
Frakkar höfðu andað léttar eftir að Evrópumótinu í knattspyrnu lauk stórslysalaust um síðustu helgi.
Fyrir átta mánuðum, næstum upp á dag, gerðu menn á vegum Ríkis íslams hryðjuverkaárás í París. Hún var gerð að kvöldi 13. nóvember. Í henni féllu 130 manns.