Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra hefur sent Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, samúðarkveðjur frá ríkisstjórninni og íslensku þjóðinni vegna árásanna í Nice í gær. Þetta kemur fram á heimasíðu forsætisráðuneytisins. „Þessir skelfilegu atburðir eru mikið áfall og er hugur okkar hjá fjölskyldum og ástvinum sem eiga um sárt að binda og frönsku þjóðinni,“ segir í kveðju Sigurðar Inga til Valls.
Að minnsta kosti 84 eru látnir og tugir til viðbótar hið minnsta lífshættulega slasaðir eftir að maður ók flutningabíl inn í mannmergð á göngugötu í Nice eftir hátíðahöld í tilefni þjóðhátíðardags Frakka í gærkvöldi. Francois Hollande forseti hefur lýst árásinni sem hryðjuverki.