Skotið úr þyrlum á almenna borgara

Stuðningsmenn Recep Tayyip Erdogan forseta Tyrklands söfnuðust saman í Antalya.
Stuðningsmenn Recep Tayyip Erdogan forseta Tyrklands söfnuðust saman í Antalya. AFP

Að minnsta kosti sautján eru látnir eftir árás þyrlu á höfuðstöðvar lögreglu í Ankara í Tyrklandi. Þá hefur tyrknesk orrustuþota skotið niður herþyrlu sem skipuleggjendur valdaránstilraunar í landinu notuðu í kvöld. Ríkismiðillinn Anadolu greinir frá þessu.

Forsætisráðherra Tyrklands, Binali Yildirim, segir hópinn á bak við aðgerðirnar stunda „hryðjuverk“. Hann hefur tekið undir bón forsetans um að fólk fari út á götu og sýni stuðning sinn við stjórnvöld. Margir hafa tekið þá á orðinu og safnast saman bæði í Istanbúl og Ankara.

Hlúð að særðum manni við Bosphorus brúna í Istanbúl.
Hlúð að særðum manni við Bosphorus brúna í Istanbúl. AFP

Þá hafa hermenn hafið skothríð á fólk í Istanbúl og að sögn ljósmyndara AFP á staðnum eru einhverjir látnir. Greint hefur verið frá því að hermenn hafi skotið á fólk sem reyndi að komast yfir Bosporus-brúna í Istanbúl til að mótmæla valdaránstilrauninni. Ljósmyndari AFP sá neyðaraðila vera að bera fólk inn í sjúkrabíla við brúna.

Hershöfðingi í efsta her Tyrklands segir í samtali við ríkisfjölmiðla að þeir sem standa fyrir valdaránstilauninni séu aðeins lítill hópur innan hersins og „ekkert til að hafa áhyggjur af“.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur hvatt til stuðnings við „lýðræðislega kosna“ ríkisstjórn Tyrklands. Þá hvatti hann jafnframt Tyrki til þess að forðast hvers konar „ofbeldi eða blóðbað“.

Myndbandið hér að neðan á að sýna hermenn skjóta úr þyrlu á almenna borgara en það gæti valdið óhug. 

AFP
AFP
mbl.is