Stökk á vörubílinn

Lögreglumenn og heilbrigðisstarfsfólk á vettvangi í Nice í nótt.
Lögreglumenn og heilbrigðisstarfsfólk á vettvangi í Nice í nótt. AFP

Franski þingmaðurinn Eric Ciotti varð vitni að árásinni í frönsku borginni Nice í gærkvöldi. Í samtali við útvarpsstöðina Europe 1 í morgun sagðist hann hafa séð mann einn skyndilega stökkva á vörubílinn og reyna þannig að stöðva för hans, á meðan bílnum var ekið í gegnum mannfjöldann.

Það hafi verið á því augnabliki sem lögreglunni tókst að koma ökumanni bílsins úr jafnvægi. „Ég mun aldrei gleyma svipnum á lögreglukonunni sem stöðvaði morðingjann,“ sagði hann.

Hann lýsti einnig óttanum sem greip um sig á meðal fólks sem var að fagna þjóðhátíðardegi Frakka á strandgötunni. Fólk hefði öskrað og hlaupið í allar áttir. Sumir hefðu jafnvel hlaupið eins og fætur toguðu út í sjó.

Þegar fólkið á strandgötunni sá vörubílinn koma á fleygiferð reyndi það að stöðva för hans. Lengi vel hékk það utan í bílnum til þess að reyna að fá ökumanninn til þess að stoppa. En þá gaf hann í og ók á fleygiferð inn í mannþröngina.

Maðurinn skaut einnig á vegfarendur og lögregluþjóna úr glugga bílsins. Lögreglan skaut hann loks til bana.

Að minnsta kosti 84 létust í árásinni og eru fjölmargir særðir.

AFP
mbl.is