Róslín Anna Valdemarsdóttir og unnusti hennar Rafn Svan voru stödd í Nice, skammt frá staðnum þar sem hin mannskæða árás var gerð.
Þau voru nýkomin til borgarinnar þegar atburðirnir gerðust. „Við vorum nýbúin að tékka okkur inn á hótelið en drifum okkur út aftur. Einhver í móttökunni sagði að það væri verið að fagna þessum degi [þjóðhátíðardegi Frakka]. Það tekur korter að labba niður á strönd, þannig að við ákváðum að drífa okkur og náðum í endann á flugeldasýningunni,“ greinir Róslín frá.
Frétt mbl.is: Sjötíu látnir og hundrað særðir í Nice
Að henni lokinni ákváðu þau að halda áfram göngu sinni og fá sér að borða. Þá tóku þau eftir að fjöldi fólks byrjaði að hlaupa eftir götunni. „Við ákváðum að hlaupa líka. Það voru allir í geðshræringu, hlaupandi. Einhverjir voru hlæjandi og einhverjir voru grátandi. Við vorum mjög hrædd og vissum ekkert hvað var í gangi. Matsölustöðum var lokað og fólk var inni á stöðunum að passa sig,“ segir hún og bætir við að þau hafi drifið sig upp á hótelherbergi.
Róslín kveðst ekki hafa heyrt nein skot en fljótlega heyrðist í sjúkrabílum og lögreglubílum á leið á vettvang.
Hún hringdi í móður sína eftir atburðinn til að láta vita að það væri í lagi með þau, auk þess sem þau ræddi við aðra í fjölskyldunni og vini á Facebook.
Einnig hafði hún samband við utanríkisráðuneyti Íslands til að láta vita af sér.
Spurð segist hún ekki vita hvort þau ætli að vera áfram í Nice. „Við ætluðum að vera á hótelinu í eina viku en ég veit ekki hvort við verðum hérna eða gerum eitthvað annað.“