„Þetta er árás á þjóðina“

Frakkar eru harmi slegnir yfir mannfallinu í árás sem gerð …
Frakkar eru harmi slegnir yfir mannfallinu í árás sem gerð var í Nice í gærkvöldi. AFP

Frakkar eru slegnir óhug og samúðarbylgja fer yfir landið með íbúum Nice þar sem tugir manna létust í árás í gærkvöldi, að sögn Berglindar Ásgeirsdóttur, sendiherra Íslands í Frakklandi. „Þetta á sér stað í Nice en þetta er árás á þjóðina,“ segir hún um voðaverkið.

Að minnsta kosti 84 eru látnir og tugir til viðbótar hið minnsta eru lífshættulega slasaðir eftir að maður ók flutningabíl inn í mannmergð á göngugötu í strandborginni Nice eftir hátíðarhöld í tilefni þjóðhátíðardags Frakka í gærkvöldi. Francois Hollande forseti hefur lýst árásinni sem hryðjuverki.

Berglind var sjálf að horfa á lok flugeldasýningar í París í tilefni af bastilludeginum þegar henni bárust fregnir af árásinni í Nice.

„Það er afskaplega dapurlegt og mikil sorg. Að þetta skuli gerast þegar fólk er að fagna og fagna með fjölskyldunni sinni. Þetta með börnin finnst mér gera umræðuna aðeins öðruvísi en var eftir þessi hræðilegu hryðjuverk hér í fyrra. Það er svo mikið talað um börnin núna,“ segir Berglind en að minnsta kosti tvö börn eru á meðal þeirra sem létust í árásinni í gær. 

Menn munu aldrei gefast upp

Sendiherrann segir sláandi að í hátíðarávarpi sínu í gærkvöldi hafi Hollande forseti tilkynnt sérstaklega að neyðarlög, sem gefa lögreglu heimild til að gera húsleitir og banna fjöldasamkomur og hafa verið í gildi frá því að hryðjuverkin voru framin í París, yrðu ekki framlengd. Þau eiga að renna út í næstu viku.

„Svo gerast þessi atburðir um kvöldið. Þetta er árás á þjóðina. Þetta á sér stað í Nice en þetta er árás á þjóðina. Forseti Frakklands hefur kallað til einingar og að menn taki hlutina föstum tökum. Menn munu aldrei gefast upp,“ segir Berglind.

Talið er að um 30.000 manns hafi verið á svæðinu þegar árásin var gerð. Þjóðarleiðtogar um allan heim hafa fordæmt hana í dag og lýst yfir samstöðu með Frökkum.

„Þetta eru svo sterkar tilfinningar í dag. Það er svo mikil sorg. Þetta hefur gerst aftur og það í svona friðsælum bæ eins og Nice er. Þetta er ferðamannabær og fólk er slegið óhug. Það er náttúrulega mikil samúðarbylgja með fólkinu þarna,“ segir Berglind.

Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands, með lítilli hnátu á samkomu í …
Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands, með lítilli hnátu á samkomu í París í tengslum við EM í knattspyrnu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Allir íslensku stuðningsmennirnir hafa gengið þar

Aðeins eru rúmar tvær vikur frá því að þúsundir Íslendinga voru í Nice til að fylgjast með leik íslenska landsliðsins gegn því enska í Evrópukeppninni í knattspyrnu. Árásin í gær var gerð á göngugötunni Promenade des Anglais.

„Þetta er gatan meðfram ströndinni. Eiginlega allir sem koma til Nice ganga þarna þannig að mér finnst mjög líklegt að öll þessi þúsund Íslendinga sem voru þarna á leiknum hafi gengið þessa götu,“ segir Berglind.

Hún segist upplifa atburðina persónulega því hún var í Nice í tengslum við landsleikinn fyrir skömmu.

„Ég átti svo góð samskipti við yfirvöld borgarinnar og þetta er bara sama fólkið og ég sé núna að fást við þetta hræðilega vandamál. Menn tóku svo fast og vel á þessum öryggismálum í tengslum við knattspyrnuna. Þessi keppni gekk svo vel og svo bara gerist þetta núna,“ segir Berglind.

Þrílitur fáni Frakklands hífður í hálfa stöng í Nice eftir …
Þrílitur fáni Frakklands hífður í hálfa stöng í Nice eftir voðaverkin á þjóðhátíðardaginn. AFP

Var einum ljósum frá atburðunum

Um leið og fréttist af árásinni höfðu starfsmenn sendiráðsins í París samband við ræðismanninn í Nice. Berglind segir að fimm Íslendingar búi í Nice að því er best er vitað og haft hafi verið uppi á þeim.

„Hins vegar er svo mikill fjöldi ferðamanna þarna. Í nótt var til dæmis haft samband við utanríkisráðuneytið vegna fjölskyldu sem verið var að leita að en hún hefur sem betur fer komið fram,“ segir sendiherrann.

Íslendingar á svæðinu hafa verið hvattir til að hafa samband og láta fjölskyldu og ástvini vita af sér. Ef ekkert hefur spurst til þeirra hefur verið haft samband við utanríkisráðuneytið. Áætlun sé sett í gang þegar hörmungar af þessu tagi eigi sér stað til þess að reyna að koma upplýsingum til fólks.

Sjálf segist Berglind hafa heyrt frá konu sem var nærri hörmungunum.

„Eins og hún sagði við mig: „Ég var einum ljósum frá þar sem þetta gerðist.“ Hún var svo heppin að stoppa við rauð ljós og fór ekki lengra. Hún hírðist svo niðri í kjallara í skóbúð í einn og hálfan tíma áður en hún þorði út,“ segir Berglind.

mbl.is