Þjóðarleiðtogar lýsa hryllingi sínum

Fjöldi fólks hefur skilið eftir blóm til minningar um fórnarlömb …
Fjöldi fólks hefur skilið eftir blóm til minningar um fórnarlömb árásarinnar nærri staðnum þar sem flutningabíl var ekið inn í mannhaf í Nice í gærkvöldi. AFP

Árásin á Nice í Frakklandi hefur vakið hrylling um allan heim. Leiðtogar helstu ríkja og ríkjabandalaga heims hafa fordæmt árásina og lýst yfir samstöðu með frönsku þjóðinni. „Orð geta varla tjáð tengslin á milli okkar og franskra vina okkar,“ sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands.

Að minnsta kosti 84 eru látnir eftir að maður ók flutningabifreið inn í mannfjölda á göngusvæði við ströndina í Nice eftir flugeldasýningu í tilefni af bastilludeginum þar í gær. Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur kallað árásina hryðjuverk.

„Allir Bandaríkjamenn standa ákveðið með frönsku þjóðinni og við segjum einni röddu: Okkur verður ekki ógnað. Við munum aldrei leyfa hryðjuverkamönnum að grafa undan gildum jafnréttis og lýðræðis sem eru undirstöður lífshátta okkar,“ sagði Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins.

Nýskipaður forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, sagði hug Breta hjá þeim sem urðu fyrir árásinni á degi þjóðarfagnaðar.

„Við erum hneyksluð og áhyggjufull yfir því sem sást þarna,“ sagði May.

Hryðjuverk blind gagnvart mannlegu siðferði

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir Kanadamenn í áfalli yfir árásinni í Nice.

„Samúð okkar er hjá fórnarlömbunum og samstaða okkar með frönsku þjóðinni,“ sagði Trudeau.

Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, vottaði fórnarlömbunum virðingu sína og sagði Kína andsnúið öllum tegundum hryðjuverka.

Vopnaður lögreglumaður stendur vörð í Nice.
Vopnaður lögreglumaður stendur vörð í Nice. AFP

„Rússland stendur með frönsku þjóðinni. Við höfum séð enn einu sinni að hryðjuverk eru gjörsamlega blind gagnvart mannlegu siðferði,“ sagði Vladimír Pútín, forseti Rússlands.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði Frakka geta treyst á framkvæmdastjórnina til að halda áfram að styðja baráttuna gegn hryðjuverkum bæði innan og utan ríkja sambandsins.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna lýsir árásinni sem villimannslegri og huglausri. Draga þurfi þá sem frömdu hana til ábyrgðar.

Fulltrúar Atlantshafsbandalagsins (NATO) tóku í sama streng. Árásin hafi beinst að saklausu fólki og þeim megingildum sem NATO stendur fyrir.

„Hins vegar munu hryðjuverk aldrei sigrast á lýðræði, frelsi og opnu samfélagi,“ sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.

„Staðfesta okkar verður eins eindregin og samstaða okkar,“ sagði Juncker.

mbl.is