„Við dóum næstum því“

Lögreglumenn á vettvangi í Nice í nótt.
Lögreglumenn á vettvangi í Nice í nótt. AFP

„Við dóum næstum því. Þetta var eins og ofskynjun. Vörubíllinn sikksakkaði. Maður hafði enga hugmynd um hvert hann var að fara,“ sagði Wassim Bouhel, sem varð vitni að árásinni í frönsku borginni Nice í gærkvöldi, í samtali við frönsku sjónvarpsstöðina iTele.

„Vörubíllinn óð áfram í gegnum allt, staura og tré. Við höfum aldrei séð neitt þessu líkt. Sumir héngu á hurðum bílsins og reyndu að stöðva hann,“ bætti hann við.

Lucy Nesbitt-Comaskey, annar sjónarvottur, sagðist í samtali við Sky News hafa heyrt byssudrunur líkt og hún væri stödd í Beirút.

„Þetta var hörmulegt, þetta var hryllilegt. Ég sagði við vin minn: Þetta hljómar ekki eins og flugeldar. Þetta er líkt og í sprengjuregni í Beirút.“

Allt í einu hafi fólk öskrað og hlaupið út um allt. Margir hafi leitað inn á veitingastaði. „Allir veitingastaðir voru opnir og fólk leitaði þangað. Við sátum þar bara og allir komu inn á veitingastaðinn okkar og eigendurnir sögðu: Ekki fara neitt, komið inn, komið inn.“

Bretinn Will Shaw sagði í samtali við breska ríkisútvarpið að gríðarleg ringulreið hefði skapast á svæðinu. „Fjölmargir voru öskrandi og hlaupandi um.“

Mikill ótti hafi gripið um sig á meðal viðstaddra þegar skothvellir heyrðust. Enginn hafi hins vegar vitað hvað var að gerast.

Búið er að bera kennsl á manninn sem ók vörubílnum í gegnum mannhafið í gærkvöldi. Að minnsta kosti 84 létust í árásinni. Tugir til viðbótar liggja særðir á sjúkrahúsi.

AFP
mbl.is