Utanríkisráðuneyti Rússlands segir að valdaránstilraunin í Tyrklandi ógni stöðugleika á svæðinu. „Moskva hefur miklar áhyggjur af atburðunum í Tyrklandi,“ sagði í yfirlýsingu frá ráðuneytinu.
„Stjórnmálaástandið í landinu, fyrirliggjandi hryðjuverkaógn og deilur vopnaðra aðila ógna alþjóðlegum stöðugleika og einnig á svæðinu sjálfu,“ sagði í yfirlýsingunni.
Utanríkisráðherra Frakka, Jean-Marc Ayrault, fordæmdi valdaránstilraunina í Tyrklandi og sagðist vona að „lýðræðið muni styrkjast“ eftir hana.
„Tyrkneska þjóðin sýndi þroska sinn og hugrekki með því að sýna virðingu sína gagnvart stofnunum landsins. Hún þurfti að gjalda fyrir það með mörgum mannslífum,“ sagði hann í yfirlýsingu sinni.