Fimm börn berjast fyrir lífi sínu eftir árásina í Nice. Meðal barnanna er átta ára drengur sem enn hefur ekki tekist að bera kennsl á. Þetta kemur fram í frétt AFP.
Börnin dvelja á Fondation Lenval-sjúkrahúsinu í Nice, borginni þar sem túniskur vörubílstjóri ók á mikilli ferð í gegnum mannfjölda sem fagnaði þjóðhátíðardegi Frakka á fimmtudag. Alls létu 84 lífið en tíu unglingar eru meðal hinna látnu.
„Fimm börn eru enn í alvarlegu ástandi en ástand eins barns er stöðugt,“ er haft eftir talskonu sjúkrahússins. Alls komu 30 börn til aðhlynningar á sjúkrahúsið kvöldið örlagaríka en yngsta barnið var aðeins sex mánaða gamalt. Flest barnanna voru með höfuðáverka og beinbrot.
„Við erum vön að meðhöndla mörg börn, það sem er erfiðast að eiga við eru sálrænu áhrifin,“ segir talskonan. Áfallahjálparteymi hefur verið að störfum við sjúkrahúsið og hafa yfir 50 fjölskyldur leitað hjálpar teymisins síðan árásin var gerð.