179 Íslendingar eru staddir í sólarlandaferð í Tyrklandi á vegum ferðaskrifstofunnar Nazar. Þar af eru 49 börn í hópnum. Þetta kemur fram í frétt á vefnum turisti.is. Ferðamennirnir eru staddir í strandbæjunum við Antalya við suðausturströnd Tyrklands í um 700 km fjarlægð frá Istanbúl og tæpa 500 km frá Ankara.
Mikill óróleiki er nú í Tyrklandi þar sem tilraun var gerð til valdaráns í gærkvöld.
Búist er við að heimferð íslenskra ferðamanna frá Antalya verði samkvæmt áætlun á miðvikudag. Nazar er eina ferðaskrifstofan sem býður upp á sólarlandaferðir til Tyrklands að því er fram kemur í fréttinni.
Kemal Yamanlar, framkvæmdastjóri Nazar, er staddur í Tyrklandi en í samtali við Túrista segir hann farþega Nazar ekki vera órólega vegna atburðanna í landinu, lífið á ferðamannasvæðunum gangi sinn vanagang.
Ekki hefur komið til neinna átaka á svæðinu en Yamanlar útilokar þó ekki að mótmæli hafi brotist út á einhverjum stöðum. Flug liggur enn þá niðri en vonast er til að samgöngur komist í lag fljótt og að flugið til Íslands verði samkvæmt áætlun á miðvikudag. Ekki er þó hægt að segja til með vissu um hvenær flugvellir verði opnaðir á nýjan leik.