Fjórir menn, sem eru sagðir tengjast túniska manninum sem drap 84 manneskjur þegar hann ók vöruflutningabíl inn í mannfjölda á þjóðhátíðardegi Frakka í Nice, hafa verið handteknir.
Einn mannanna var handtekinn í gær en þrír til viðbótar í morgun.
Fyrrverandi eiginkona mannsins er einnig enn í haldi lögreglu.
Árásarmaðurinn, Mohamed Lahouaiej Bouhlel, fæddist 3. janúar 1975 í Túnis. Hann var búsettur í Nice og starfaði sem bílstjóri og sendill. Þá var hann giftur og átti börn.
Húsleit var gerð í íbúð hans í gærmorgun en saksóknari sagði að þar hefðu fundist ýmis skjöl og önnur gögn, til dæmis á tölvutæku formi, sem munu nýtast vel í rannsókninni.