Fljúga heim á miðvikudag

Ívar Atli og Linda eru stödd úti í Tyrklandi ásamt …
Ívar Atli og Linda eru stödd úti í Tyrklandi ásamt sonum Lindu. Mynd/Facebook

Ívar Atli Brynjólfsson er staddur í Tyrklandi ásamt sambýliskonu sinni og tveimur sonum hennar. Þau eru stödd í bænum Side við suðurströnd Tyrklands á vegum ferðaskrifstofunnar Nazar ásamt fleiri Íslendingum.

„Nei ekki neitt, engin hræðsla og ekki neitt,“ segir Ívar, spurður hvort þau hafi orðið einhvers vör vegna valdaránstilraunarinnar sem gerð var í Tyrklandi í gærkvöld. Þau hafa reglulega fengið sendar upplýsingar um stöðu mála með SMS-skilaboðum frá ferðaskrifstofunni.

„Við fljúgum alveg heim, alla vega eins og staðan er núna,“ segir Ívar, en miðað við þær upplýsingar sem þau hafa fengið frá ferðaskrifstofunni eru flugvellir í nágrenninu opnir eins og venjulega og sama gildir um flugbrottfarir.

Þeim er nú heimilt að fara út af hótelsvæðinu en utanríkisráðuneytið hefur afturkallað fyrri tilmæli um að Íslendingar staddir í Tyrklandi skuli halda sig innandyra. Ferðabann til Tyrklands er enn í gildi en samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu verður líklega gefin út ný tilkynning í fyrramálið varðandi ferðabannið.

Frétt mbl.is: Fjöldi Íslendinga í Tyrklandi

mbl.is