Múslímaklerkurinn Fethullah Gulen er sagður bera ábyrgð á valdaránstilrauninni í Tyrklandi sem hófst í gærkvöldi. Í frétt AFP um Gulen er hann kallaður erkióvinur Receps Tayyips Erdogans, forseta Tyrklands, sem var ekki lengi að saka þennan gamla vin sinn um að hafa reynt að steypa sér af stóli í kvöld.
Gulen á sér marga fylgismenn í heimalandinu en hann býr þó í Bandaríkjunum, Pennsylvaníu nánar tiltekið. Nýtur hann mikils stuðnings meðal lögreglu og innan dómskerfisins en það stöðvaði Erdogan ekki í því að saka hann um að bera ábyrgð á atburðunum í Tyrklandi í kvöld og í nótt.
Talsmenn hreyfingarinnar neituðu hins vegar allri aðild og sögðust í tilkynningu skuldbundnir lýðræðinu og á móti öllum hernaðaraðgerðum.
Gulen, sem er í dag 75 ára gamall, var eitt sinn bandamaður forsetans en það slettist upp á vinskapinn þegar Erdogan fór að taka eftir áhrifum Gulen-hreyfingarinnar.
Klerkurinn fluttist til Bandaríkjanna árið 1999, áður en Erdogan lét ákæra hann fyrir landráð. Hann hefur síðan lifað rólegu og einangruðu lífið í Pennsylvaníu og kemur sjaldan fram opinberlega.
Óþolinmæði Erdogans gagnvart Gulen-hreyfingunni náði vissu hámarki í lok ársins 2013 þegar saksóknarar sem taldir eru nánir Gulen ákærðu nokkra í innsta hring forsetans, þar á meðal son hans, um spillingu.
Erdogan brást við með því að víkja mörg hundruð starfsmönnum hersins úr starfi, þar á meðal helstu yfirmönnum, loka skólum sem kenndu eftir boðskap Gulans, Hizmet, og reka mörg hundruð lögreglumenn.
Hann hefur einnig ráðist gegn dagblöðum sem hann telur styðja Gulan, látið reka ritstjórana eða einfaldlega lagt dagblöðin niður.
Tyrknesk yfirvöld hafa sakað Gulen um að reyna að stofna „ríki inni í ríki“ í Tyrklandi en hreyfing hans hefur neitað því.
„Í rúm 40 ár hafa Fethullah Gulen og Hizmet-iðkendur barist fyrir og skuldbundið sig að friði og lýðræði,“ sagði í tilkynningu Alliance for Shared Values frá því í kvöld. Sagði jafnframt að kjarni Hizmet væri andstæða við hernaðaraðgerðir í innanlandsstjórnmálum.
Að sögn Anatolia-fréttastofunnar hafa um 1.800 manns, þar af 750 lögreglumenn og 80 hermenn, verið handteknir í tengslum við Gulen-hreyfinguna í Tyrklandi síðustu tvö árin. Um 280 þeirra eru enn í fangelsi.