Hvetur Frakka til að standa saman

Frakkar minnast fórnarlambanna í Nice.
Frakkar minnast fórnarlambanna í Nice. AFP

Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur kallað eftir því að þjóðin standi saman eftir árásina í borginni Nice þegar túniskur maður ók á vörubíl í mannfjölda og varð 84 að bana.

„Við erum stödd þar, og við höfum tekið eftir því, að reynt er að tvístra okkar þjóð. Vegna þessarar hættu verðum við að muna eftir samstöðunni og samheldninni í þessu landi,“ sagði talsmaður forsetans og vitnaði í orð hans.

Francois Hollande, forseti Frakklands.
Francois Hollande, forseti Frakklands. AFP

Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, segir að maðurinn sem bar ábyrgð á árásinni virðist hafa orðið „öfgasinnaður mjög snögglega“.

Hann segir að árásin á þjóðhátíðardegi Frakka hafi verið ný tegund árásar sem sýni hversu erfitt er að berjast gegn hryðjuverkum.

Hann staðfestir einnig að árásarmaðurinn, Mohamed Lahouaiej-Bouhlel, hafi ekki verið þekktur á meðal leyniþjónustunnar í landinu.

mbl.is