Leiðtogar heimsins tjá sig um Tyrkland

Fólk heldur á tyrkneska fánanum við Ataturk-flugvöllinn í Istanbúl.
Fólk heldur á tyrkneska fánanum við Ataturk-flugvöllinn í Istanbúl. AFP

Leiðtogar heimsins hafa hvatt til þess að „virðing verði borin fyrir lýðræðislegum stofnunum“ eftir að misheppnuð valdaránstilraun var gerð í Tyrklandi, þar sem yfir 250 manns létu lífið.

Hér eru sum af viðbrögðum leiðtoganna:

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO:

„Ég er ánægður með þann sterka stuðning sem almenningur hefur sýnt sem og lýðræðislegir stjórnmálaflokkar og lýðræðislega kjörin stjórnvöld í Tyrklandi.“

Jens Stoltenberg.
Jens Stoltenberg. AFP

 

 

Hvíta húsið:

„Allir Tyrkir eiga að styðja lýðræðislega kjörin stjórnvöld í Tyrklandi, sýna stillingu og komast hjá frekara ofbeldi og blóðsúthellingum.“

Ban-Ki Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna:

„Afskipti hersins af málefnum hvaða ríkis sem er er óásættanlegt.“

Mohamad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans:

„Tyrkneska þjóðin stóð vörð um lýðræðið af miklu hugrekki og ríkisstjórn hennar sýnir að valdaránstilraunir eiga engan rétt á sér á okkar svæði og eru dæmdar til að mistakast.“

Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans.
Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans. AFP

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB:

„Það má ekki leysa spennuna og áskoranirnar í Tyrklandi með byssum.“

Utanríkisráðuneyti Rússlands:

„Stjórnmála­ástandið í landinu, fyrirliggjandi hryðjuverkaógn og deilur vopnaðra aðila ógna alþjóðlegum stöðugleika og einnig á svæðinu sjálfu.“

Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakka:

„Tyrkneska þjóðin sýndi þroska sinn og hugrekki með því að sýna virðingu sína gagnvart stofnunum landsins. Hún þurfti að gjalda fyrir það með mörgum mannslífum.“

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands:

„Var að tala við utanríkisráðherra Tyrkja. Ég lagði áherslu á stuðning Breta við lýðræðislega kjörna ríkisstjórnina og stofnanir landsins.“

Boris Johnson.
Boris Johnson. AFP

Hillary Clinton forsetaframbjóðandi:

„Við ættum að hvetja fólk til að halda ró sinni og virða lögin, stofnanir, almenn mannréttindi og frelsi og styðja lýðræðislega kjörna ríkisstjórn.“

mbl.is