Margir í hringdu í neyðarsímann

Utanríkisráðuneytið.
Utanríkisráðuneytið. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins fylgist grannt með gangi mála í Tyrklandi. Teymi er að störfum í ráðuneytinu sem stendur og mun gefa út upplýsingar og uppfæra ferðaviðvaranir og tilmæli eftir því sem mál þróast.

„Það var hringt talsvert mikið í gærkvöldi og í nótt í neyðarsíma ráðuneytisins. Fólk var áhyggjufullt og við aðstoðum það fólk eins og við getum en staðan náttúrulega var mjög óljós í gærkvöldi en mál eru vonandi að skýrast aðeins betur núna eftir því sem líður á daginn,“ segir Andri Lúthersson, upplýsingafulltrúi hjá utanríkisráðuneytinu, í samtali við mbl.is.

Ekki borist spurnir af Íslendingum

Ráðuneytinu hafa ekki borist spurnir af Íslendingum nálægt átökum eða að þeir hafi orðið varir við óróleika.

Ráðuneytið gaf út ferðaviðvörun í gærkvöldi þar sem fram kemur að ekki skuli ferðast til Tyrklands og þeir sem þar eru staddir skuli halda kyrru fyrir, fylgjast vel með stöðunni og sýna varkárni. Sú viðvörun er enn í gildi.

Ráðuneytið er í nánu samstarfi við Norðurlöndin hvað varðar borgaraþjónustu vegna atburðanna í Tyrklandi. Borgaraþjónusta ráðuneytisins mun gefa út uppfærðar upplýsingar eftir því sem mál þróast.

mbl.is