Einn af leiðtogum misheppnaðrar stjórnarbyltingar tyrkneska hersins hvatti uppreisnarsveitirnar snemma í morgun til þess að leggja niður vopn og gefast upp, að sögn tyrkneska ríkissjónvarpsins. Er hann sjálfur í haldi.
Recep Tayyip Erdogan forseti segir rúmlega 330 manns hafa verið tekna fasta vegna byltingartilraunarinnar, sem kostað hafi að minnsta kosti 60 manns lífið. Þegar í nótt hófst hreinsun í tyrkneska hernum.
Af hálfu saksóknaraembættisins í Ankara hefur verið gefin út handtökutilskipun á hendur þeim liðsforingjum sem taldir eru hafa staðið fyrir valdaráninu misheppnaða. Á þeim lista sé meðal annarra að finna háttsetta embættismenn æðsta áfrýjunardómstól Tyrklands.
Hermt er að uppreisnarsveitir hafi á endanum safnast saman á brúnni stóru yfir Hellusund og gefist upp árla í morgun. Embættismenn segja, að 29 ofurstar og fimm herforingjar hafi verið settir af í nótt og morgun og nýr yfirmaður heraflans skipaður, Umit Dundar að nafni. Eigi fer fregnum af örlögum forvera hans.
Talsmaður ríkisstjórnarinnar í Ankara segir að hersveitir hliðhollar yfirvöldum hafi aftur komið á röð og reglu í Tyrklandi í framhaldi af byltingartilrauninni. Áður hafði það sem kallað er brot úr heraflanum lýst því yfir að það hefði „tekið stjórn á landinu“ í sínar hendur.
Miklar sprengingar heyrðust í nótt við þinghúsið í höfuðborginni Ankara og skammt frá Taksim-torgi í Istanbúl. Þá heyrðust skothvellir í Ankara og bæði orrustuflugvélar og þyrlur sáust á flugi yfir borginni.
Erdogan forseti boðaði seint í nótt til blaðamannafundar og lýsti valdaránstilrauninni sem hryðjuverki og að hann væri hvergi á förum.