Forsætisráðherra Tyrklands, Binali Yildirim, segir að búið sé að ná stjórn á aðstæðum í Tyrklandi eftir að hans sögn misheppnaða valdaránstilraun. Yfirmaður innan tyrknesku leyniþjónustunnar hefur jafnframt sagt að valdaránstilraunin hafi ekki tekist.
Að minnsta kosti þrjár sprengjur hafa fallið á þinghúsið í Ankara og að sögn CNN Turk særðust einhverjir lögreglumenn og starfsmenn þingsins. Að minnsta kosti tveir hafa látið lífið í átökum í Istanbúl.
Yildirim sagði að um væri að ræða gjörðir uppreisnarmanna sem fylgja múslímaklerknum Fethullah Gulen en hann býr í Bandaríkjunum. Samtökin Alliance for Shared Values, sem starfa náið með Gulen, neita allri aðild að málinu.
Dómsmálaráðherra Tyrklands, Bekir Bozdag, tók í sama strengi í sjónvarpsviðtali, að það væru meðlimir hreyfingar klerksins Fethulahs Gulens sem bæru ábyrgð á valdaránstilrauninni í landinu. Reuters greinir frá þessu en ríkismiðillinn Anadolu hefur einnig sagt frá því að það sé Gulen-hreyfingin sem standi á bak við aðgerðirnar.
Mikil óvissa og ringulreið ríkir nú í Tyrklandi, sér í lagi í Ankara og Istanbúl þar sem liðsmenn hersins sem taka þátt í valdaránstilrauninni berjast við aðra hermenn og lögreglumenn. Þá hefur einnig verið skotið á almenna borgara, bæði í Ankara og Istanbúl. Rétt í þessu heyrðist hávær sprenging í Istanbúl að sögn vitnis sem Reuters ræddi við en að minnsta kosti tvær kröftugar sprengingar urðu í Ankara fyrr í kvöld.
Starfsfólk á alþjóðaflugvellinum í Istanbúl vonast til þess að hægt sé að opna flugvöllinn að nýju fljótlega. Völlurinn hefur verið lokaður í nokkra klukkutíma vegna valdaránstilraunarinnar en skriðdrekum var komið fyrir við flugvöllinn. Eins og fyrr segir lenti forsetinn í Istanbúl rétt í þessu.
Í samtali við Reuters segir vitni á Taksim-torgi í Istanbúl að tugir tyrkneskra hermanna séu búnir að afhenda lögreglu vopn sín. Tvær háværar sprengingar heyrðust skammt frá torginu rétt í þessu.
Fréttin verður uppfærð.