Þorri fólks trúir á lýðræðið

Á Takim torgi í Istanbúl í kvöld.
Á Takim torgi í Istanbúl í kvöld. AFP

Ingi­björg Sól­rún Gísla­dótt­ir, fyrrverandi utanríkisráðherra og núverandi svæðis­stjóri UN Women í Evr­ópu og Mið-Asíu, segir erfitt að henda reiður á hvað sé nákvæmlega í gangi í Tyrklandi þessa stundina, en hún er búsett í Istanbúl.

„Við höfum ekkert orðið mjög áþreifanlega vör við þetta, enda haldið okkur heima síðan fregnirnar bárust. Eina sem við höfum heyrt er stöku þyrla hér á flugi. Við heyrðum reyndar áðan dálítið af skothvellum og í einni sprengju ekkert svo fjarri,“ segir Ingibjörg í samtali við mbl.is.

Hún segist hafa á tilfinningunni að meira sé í gangi í Ankara en í Istanbúl en hún býr ekki langt frá Bospór­us-brúnni, sem meðlimir hersins sem stóðu á bak við valdaránstilraunina lokuðu fyrr í kvöld. Þar hafa brotist út átök milli þeirra og mótmælenda.

„Ég hef það á tilfinningunni, án þess að ég viti nákvæmlega um það, að stjórnin sé að ná undirtökunum í þessu,“ segir Ingibjörg en ítrekar að hún haldi að miðpunktur átakanna sé frekar í Ankara en Istanbúl.

Áfall fyrir Tyrki

Hún telur að valdaránstilraunin sé mikið áfall fyrir Tyrki. „Hvað sem fólki kann að finnast um stjórnvöld held ég að þorri fólks hérna trúi á lýðræðið og vilji að hinn lýðræðislegi vilji fái að ráða og að þeim tíma í sögu Tyrklands sé lokið þegar herinn þarf að taka yfir stjórn.“

Aðspurð hvernig hún meti stöðu Receps Tayyips Erdogans, forseta Tyrklands, segir hún hann mjög umdeildan en hafi meirihlutann á bak við sig. Fyrr í kvöld hvatti forsetinn landsmenn til þess að hunsa útgöngubann og flykkjast út á götur til að sýna stuðning. Fjölmargir hlýddu kallinu. „Hann tekur áhættu með því að gera það en þetta sýnir heilmikinn kjark hjá fólkinu að það fór út,“ segir Ingibjörg.

Hún segir að meirihlutinn sem stendur á bak við forsetann styðji hann í gegnum þykkt og þunnt. Þó sé afar stór minnihluti í landinu sem er mjög andsnúinn forsetanum.

Gæti haft þveröfug áhrif

Fregnir hafa borist af því að lokað hafi verið á samfélagsmiðla eins og Twitter og Facebook í kvöld og segir Ingibjörg að netið hafi verið að detta inn og út en síminn hafi virkað hingað til.

Hún segir erfitt að segja til um hvaða áhrif valdaránstilraunin muni hafa á stjórnmálaástand í landinu en væntanlega verða þau talsverð. „En þetta gæti virkað þveröfugt við það sem uppreisnarmennirnir ætluðu sér í upphafi og gæti styrkt forsetann.“

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir býr í Istanbúl.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir býr í Istanbúl.
mbl.is