Valdaránstilraunin í hnotskurn

Fólk stendur á skriðdreka í Istanbúl og fagnar því að …
Fólk stendur á skriðdreka í Istanbúl og fagnar því að valdaránið misheppnaðist. AFP

Hluti tyrkneska hersins með skriðdreka og orrustuþotur að vopni hóf tilraun til að ræna völdum af Recep Tayyip Erdogan forseta í gærkvöldi. Tilraunin misheppnaðist en tugir manna, m.a. um 50 óbreyttir borgarar, létust í átökum næturinnar. Líklegt er talið að yfir 250 manns hafi fallið.

Þetta er það sem vitað er nú þegar um ástandið:

Hver stóð að baki valdaránstilrauninni?

Hópur sem kallar sig Friðarráð heimalandsins (Council for Peace in the Homeland) lýsti því yfir í gær að herlög giltu í Tyrklandi og að útgöngubann ríkti. Hann sagðist hafa sett af stað stjórnarbyltingu til að „tryggja og endurnýja stjórnskipulag, lýðræði, mannréttindi og frelsi.“ Enginn einn hershöfðingi hefur lýst yfir ábyrgð.

Erdogan hefur hins vegar skellt skuldinni á sinn erkióvin, Fethullah Gulen, tyrkneskan klerk sem búsettur er í Bandaríkjunum. Hreyfing hans, Hizmet, hefur nokkur ítök í tyrknesku samfélagi, m.a. í fjölmiðlum, hjá lögreglunni og í dómskerfinu.

 Gulen hefur hins vegar neitað því að hafa staðið að baki valdaránstilrauninni og hefur fordæmt hana.

Fólk við Bosphorus-brúna leitar skjóls fyrir skothríðinni á milli stjórnarhermanna …
Fólk við Bosphorus-brúna leitar skjóls fyrir skothríðinni á milli stjórnarhermanna og uppreisnarmanna í morgun. AFP

 Hvernig brást ríkisstjórnin við?

 Orrustuþotur stjórnarhersins skutu niður þyrlur og flugvélar sem hermenn byltingarinnar flugu. Þeir létu einnig sprengjum rigna yfir skriðdreka sem höfðu umkringt forsetahöllina í Ankara.

Tugir hermanna sem tekið höfðu þátt í valdaránstilrauninni játuðu sig sigraða á Bosphorus-brúnni í Istanbúl en þeir höfðu tekið brúna á sitt vald alla nóttina. Þeir héldu höndum uppréttum og voru settir í varðhald.

Um 200 hermenn játuðu sig svo sigraða í höfuðstöðvum hersins í Ankara í dag að því er fram kemur í frétt ríkisreknu fréttastofunnar Anadolu.

Stjórnvöld reyndu í dag að koma á eðlilegu ástandi í landinu, m.a. með þeim táknræna gjörningi að hleypa umferð aftur á brýr sem byltingarmenn tóku á sitt vald í nótt. Einnig opnuðu þau aftur Ataturk-alþjóðaflugvöllinn. Uppreisnarmenn höfðu lokað vellinum í gærkvöldi.

Erdogan hafði hvatt stuðningsmenn sína til að fara út á götur í nótt til að aðstoða við að hrinda uppreisninni á bak aftur. Í morgun hvatti hann hins vegar þjóð sína til að halda sig fjarri því mögulegt væri að átök myndu blossa upp að nýju.

Hver heldur um stjórnartaumana?

Tyrkneski forsætisráðherrann Binali Yildirim sagði í Ankara í morgun að ríkisstjórnin hefði „stjórn á ástandinu.“

Umit Dundar, sem hefur verið settur yfir herinn eftir nóttina, segir að uppreisnin hafi verið brotin á bak aftur. Hann segir að yfirvöld hafi náð völdum í þinghúsinu en umsátur var um það í nótt.

Búið er að handtaka 2.838 hermenn sem tóku þátt í valdaránstilrauninni.

Erdogan flaug til Istanbúl snemma í morgun. Hann segir að sprenging hafi orðið á hótelinu sem hann dvaldi á við Miðjarðarhafsströndina eftir að hann fór þaðan.

Erdogan skipaði Dundar yfirmann hersins í kjölfar þess að hershöfðinginn fyrrverandi, Hulusi Akar, var handsamaður af uppreisnarmönnum. Hann var frelsaður úr haldi þeirra í dag.

Menn standa yfir líki manns sem féll í átökum næturinnar …
Menn standa yfir líki manns sem féll í átökum næturinnar í Istanbúl. Um 250 manns eru látnir. AFP

 Hversu margir hafa fallið?

Talið er að alls hafi yfir 250 manns fallið í átökunum síðustu klukkustundir. Forsætisráðherrann sagði í morgun að 161 væri látinn og að 1.440 hefðu særst. Settur hershöfðingi segir hins vegar að 104 uppreisnarmenn hafi dáið.

Erdogan hafði beðið stuðningsmenn sína að hópast út á götur og á nokkrum stöðum voru þeir mun fleiri en hermennirnir sem komu að valdaránstilrauninni.

Uppreisnarmennirnir höfðu m.a. tekið sér stöðu við brýrnar yfir Bosphorus-sundið við Istanbúl og segir ljósmyndari AFP-fréttastofunnar að þeir hafi skotið á mannfjöldann við eina brúna og sært marga.

Þeir skutu einnig á mótmælendur á Taksim-torgi í Istanbúl.

Sprengjur sprungu við stjórnarbyggingar er stjórnarherinn skaut á skriðdreka uppreisnarmannanna.

Hvernig hefur heimsbyggðin brugðist við?

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir að fólkið í landinu hafi staðið sterkt saman og með lýðræðinu og benti á að stjórnvöld í Tyrklandi væru lýðræðislega kjörin og að Tyrkland væri lykilaðili að NATO.

Utanríkisráðuneyti Rússlands segir að valdaránstilraunin, hryðjuverkaárásir að undanförnu og vopnuð átök í nágrannalöndum Tyrklands, auki á óvissuástand og óöryggi á svæðinu og á alþjóðavísu.

Utanríkisráðherra Frakklands segist vonast til þess að lýðræðið standi sterkara eftir valdaránstilraunina og að frelsi verði virt í landinu.

mbl.is