Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, ætlar að krefjast þess að Bandaríkin framselji múslimaklerkinn Fathullah Gulen til Tyrklands en Erdogan segir að Gulen beri ábyrgð á valdaránstilrauninni í landinu í gær.
Erdogan ræddi við stuðningsmenn sína á fjöldafundi í Istanbúl í dag. Sagði hann það ljóst að „erlend öfl“ væru að reyna að snúa þjóðinni gegn hernum.
„Bandaríki, þið verðið að framselja þennan mann,“ sagði Erdogan við mörg þúsund stuðningsmenn sem komu saman nálægt heimili forsetans í dag.
Fyrri frétt mbl.is: Hver er þessi Fethullah Gulen?
Gulen hefur búið í Bandaríkjunum frá árinu 1999. Hann býr í Pennsylvaníu og hefur neitað allri aðild að valdaránstilrauninni.
Hefur hann sagst fordæma aðgerðirnar og vera á móti hernaðaraðgerðum í innanlandspólitík.
Eins og fyrr hefur komið fram lenti tyrknesk herþyrla í Grikklandi í morgun með átta manns innanborðs. Eiga einhverjir þeirra að hafa skipulagt valdaránstilraunina og óskað eftir pólitísku hæli í Grikklandi. Tyrkir segjast búast við því að nágrannar þeirra Grikkir sendi þá aftur til Tyrklands.
Tæplega 3.000 hermenn hafa verið handteknir og 2.700 dómarar leystir frá störfum í Tyrklandi í tengslum við valdaránstilraunina. Að sögn yfirvalda í Tyrklandi létu 265 lífið í atburðum gærkvöldsins og næturinnar í Tyrklandi.