Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fordæmdi í dag valdaránstilraunina í Tyrklandi en kallaði eftir því að forseti landsins, Recep Tayyip Erdogan, myndi bregðast við með lög og reglur að leiðarljósi.
„Meðferð á þeim sem bera ábyrgð á hryllilegu atburðunum sem áttu sér stað í gærkvöldi á og getur aðeins farið fram samkvæmt lögum,“ sagði Merkel en rúmlega 250 létu lífið í átökum vegna valdaránstilraunarinnar í gær og í nótt.
Erdogan var fagnað af stuðningsmönnum sínum þegar hann kom til Istanbúl seint í gærkvöldi en hann hafði verið í fríi í Marmaris þegar valdaránstilraunin hófst. Í samtali við fjölmiðla skömmu seinna sagði hann tilraunina „föðurlandssvik“ og að þeir sem bæru ábyrgð þyrftu að greiða dýru verði fyrir gjörðir sínar. „Við afhendum uppreisnarmönnum ekki landið okkar,“ sagði forsetinn.
Forsætisráðherra landsins, Binali Yildirim, tók í sama streng og sagði uppreisnarmennina „hugleysingja“ sem „muni fá það sem þeir eigi skilið.“
Merkel sagði í dag að „lýðræði, sem virðir réttindi allra og verndar minnihlutahópa“ væri besti grunnurinn fyrir lög og reglu. Þá sagði hún Þjóðverja standa með öllum sem vernda lýðræði og lög í Tyrklandi. Bætti hún við að pólitískar breytingar ættu aðeins að eiga sér stað í gegnum þing lýðræðisríkja.