Alls hafa 292 látist eftir valdaránstilraunina í Tyrklandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti landsins.
„Meira en 100 uppreisnarsinnar“ voru drepnir og að minnsta kosti „190 af okkar borgurum“ sagði í yfirlýsingunni.
Í síðustu tilkynningu frá ráðuneytinu kom fram að 265 hefðu látið lífið.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir það koma til greina að taka dauðarefsingu upp að nýju í landinu.
„Í lýðræðisríkjum eru ákvarðanir byggðar á því sem fólkið segir. Ég tel að stjórnvöld okkar verði að ræða við stjórnarandstöðuna og komast að niðurstöðu í málinu,“ sagði hann en hópur fólks hefur krafist þess að uppreisnarmenn verði dæmdir til dauða.
„Við megum ekki fresta þessu vegna þess að þeir sem reyna að fremja valdarán verða að greiða fyrir það dýru verði,“ bætti forsetinn við er hann var staddur við jarðarför fórnarlamba uppreisnarmannanna.
Um 6.000 manns hafa verið handteknir vegna valdaránsins á föstudagskvöld.