Kennsl borin á árásarmanninn

Barack Obama á blaðamannfundinum í Hvíta húsinu.
Barack Obama á blaðamannfundinum í Hvíta húsinu. AFP

Borin hafa verið kennsl á manninn sem drap þrjá lögreglumenn og særði þrjá til viðbótar. Hann hét Gavin Long og var 29 ára svartur Bandaríkjamaður.

Hann er talinn hafa verið einn á ferð og ekki átt sér vitorðsmenn.

„Eins og staðan er núna vitum við ekki ástæðuna fyrir árásinni. Við vitum ekki hvort hann ætlaði að myrða lögreglumenn eða hvort hann skaut þá vegna þess að þeir voru að sinna útkalli,“ sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti á blaðamannafundi í Hvíta húsinu.

Árásin átti sér stað eftir að lögreglan brást við símhringingu um mann sem hélt á riffli við verslun.

Lögreglan skammt frá staðnum þar sem skotárásin átti sér stað.
Lögreglan skammt frá staðnum þar sem skotárásin átti sér stað. AFP

„Hvað sem ástæðunni fyrir morðunum líður þá grefur dauði þessara þriggja hugrökku lögreglumanna undan öryggi lögreglumanna víðs vegar um landið. Við sem þjóð verðum að láta í okkur heyra og vera viss um að ekkert réttlætir ofbeldi gegn lögreglumönnum,“ bætti hann við.

Fyrr í þessum mánuði voru fimm lögreglumenn skotnir til bana í borginni Dallas í Texas meðan á mótmælum stóð eftir að lögreglumenn skutu tvo þeldökka Bandaríkjamenn til bana með stuttu millibili.

Frétt mbl.is: „Heigulsháttur“ í Baton Rouge

mbl.is