Aðstoðarborgarstjóri í Istanbúl í Tyrklandi var skotinn í höfuðið í dag. Fréttaveitan Reuters greinir frá þessu og vitnar í tyrkneska fjölmiðilinn NTV. Ekki er vitað hvort árásin tengist valdaránstilrauninni á föstudaginn síðasta.
Ekki er heldur vitað hver var að verki. Samkvæmt frétt NTV fór árásarmaðurinn inn á skrifstofu Cemils Candas og heyrðust skothljóð. Candas er sagður enn á lífi en mikið slasaður.
Candas er aðstoðarborgarstjóri í Sisli-hverfinu í Istanbúl, hverfi þar sem margir af efnameiri borgarbúum búa. Hverfinu stjórnar stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn í landinu, Repúblíski þjóðarflokkurinn.