Það yrði „algjörlega óviðunandi“ fyrir tyrknesk stjórnvöld að taka aftur upp dauðarefsingu í landinu, að sögn Sebastians Kurz, utanríkisráðherra Austurríkis.
Hann segir að tyrknesk stjórnvöld verði að virða lög og mannréttindi allra Tyrkja. „Gerræðislegar hreinsanir“ komi ekki til greina.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sagði í gær koma vel til greina að taka upp dauðarefsingu á nýjan leik, til þess að bregðast við tilraun uppreisnarmanna innan raða hersins til valdaráns á föstudag.
Hann sagðist ætla að ræða við stjórnarandstöðuna um málið og komast að niðurstöðu. Ekki væri hægt að fresta því endalaust að ákveða hver refsing uppreisnarmannanna yrði. Þeir þyrftu að greiða dýru verði fyrir svik sín við föðurlandið.
Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna munu hittast í dag og ræða valdaránstilraunina og stöðu mála í Tyrklandi.
Tyrkir hafa átt í aðildarviðræðum við Evrópusambandið undanfarinn áratug, en ljóst er að þær viðræður verða settar á ís ef tyrknesk stjórnvöld ákveða aftur að taka upp dauðarefsingu.
„Austurrísk stjórnvöld munu þrýsta á önnur Evrópusambandsríki að setja mjög skýr mörk fyrir Erdogan,“ sagði Kurz í samtali við dagblaðið Kurier.
Dauðarefsing var numin úr lögum í landinu árið 2004. Henni hefur hins vegar ekki verið beitt síðan árið 1984.