Einn þeirra þriggja lögreglumanna sem skotnir voru til bana í Baton Rouge í Louisiana í gær hafði nýlega skrifað færslu á Facebook þar sem hann lýsti því hvernig væri að vera svartur lögreglumaður í Bandaríkjunum. Í færslunni talaði hann um þá spennu sem ríkti vegna litarháttar í landinu.
Montrell Jackson var 32 ára, kvæntur og átti fjögurra mánaða gamlan son. Hann hafði verið í lögreglunni í áratug. Hann var meðal þeirra þriggja lögreglumanna sem Gavin Long skaut til bana.
Þann 8. júlí, nokkrum dögum eftir að svartur maður var skotinn til bana af lögreglunni í Baton Rouge, skrifaði Jackson á Facebook: „Ég er þreyttur, líkamlega og andlega. Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með suma í fjölskyldunni, vini og aðra lögreglumenn fyrir gáleysisleg orð, en veistu, það sem er í hjarta þínu, er í hjarta þínu.“
Svo skrifaði Jackson: „Ég elska ykkur enn þá öll því að hatrið tekur of mikla orku. En ég mun ekki líta ykkur sömu augum. Ég þakka öllum þeim sem hafa stutt mig og konuna mína. Þess hefur reynst þörf. Ég segi það satt, ég elska þessa borg en ég spyr sjálfan mig hvort þessi borg elski mig. Þegar ég er í lögreglubúningnum fæ ég hatursfullt augnaráð og ef ég er ekki í búningnum líta sumir á mig sem ógn. Ég hef upplifað svo margt á minni stuttu ævi en síðustu þrír dagar hafa reynt á mig alveg inn að beini. Þegar fólk sem ég þekki hefur efast um heiðarleika minn þá áttar maður sig á að það þekkir mann ekki neitt. Gjörðir mínar ættu að tala hátt og skýrt.“
Í lok færslunnar skrifaði Jackson: „Ekki láta hatrið smita hjarta þitt. Þessi borg VERÐUR og MUN VERÐA betri.“
Frétt Sky um málið.